Snjómokstur
Ég er orðinn að manni sem mokar. Ég myndi kannski ekki segja að snjómokstur væri nýja áhugamálið mitt, en sem pabbi í fæðingarorlofi er snjómokstur eitthvað sem ég er farinn að hlakka til á morgnanna. Lít út um gluggann og sé, eins og í morgun, 30 sentímetra snjófall og hugsa „nú þarf að moka tröppurnar“. Og nei, ég er ekki ein af þessum týpum sem geri eitthvað einu sinni og básúna svo á internetinu að þetta sé hluti af mínum persónuleika (eins og ónefnd vinkona mín sem fullyrti að hún væri kona sem vaknaði alltaf klukkan sex á morgnanna til að fara í primal, eftir að hafa farið í fyrsta prufutímann sinn daginn áður), nei ég er skal ég segja ykkur búinn að moka tvisvar, og get því með sanni sagt að ég sé maður sem mokar. Moksturpabbi. Snjógrafa. Snjómaðurinn ógurlegi. Ég er orðinn fúlskeggjaður með hrímaðan andlitsmakka, brýst fram úr snjósköflunum við morgunbil til að kona og börn komist klakklaust leiðar sinnar í morgunsárið. Já, ég er sannarlega maður með mönnum. Ég er strax farinn að áforma ferð í byko til að kaupa mér almennilega snjóskóflu.
En án alls gríns er þetta mikil gæða stund. Það er tvennt við snjómokstur sem ég, reynsluboltinn, langar að nefna í þessu morguninnleggi. Það er í fyrsta lagi, að ef maður er að moka yfir höfuð, þá er það eitthvað sem þarf að gera strax. Málið er að það er auðveldast og best að moka nýfallinn snjó. Því þegar búið er að ösla tröppurnar þá þjappast snjórinn smátt og smátt og verður að klaka (svona verða jöklar til, snjór þjappar snjór í klaka) og þá er erfiðara að moka. Þannig þegar litið er út um gluggann, eins og í morgun, þá sést að mokstrar er þörf, skyldan kallar. Þannig þetta er ekki aktívitet sem maður getur kosið að sinna, þetta er ákall, sem er mikil fullnægja í því að bregðast við.
Í annan stað er virkilega fallegt hljóð í snjómokstri, og borgarsamfélagið birtist manni í eyrunum. Skrap snjóskóflunnar við stéttina í taktföstum ryþma með hléum bergmálar milli húsanna. Svo tekur maður pásu til að hvíla bogið bakið og heyrir í fjarska annan mokstur eiga sér stað. Maður tilheyrir samfélagi mokara. Samfélagi þeirra sem bregðast ákalli ofankomunnar. Það er ljúft að hreyfa sig í frosti, og góð fyrsta gjörð. Ég hvet lesendur því innilega til að koma í stemninguna og moka tröppurnar. Það er eitthvað við að sinna hlutum sínum sem hefur verið mér huglægt þetta árið og ég skrifaði meðal annars um í pistli um að laga úrið mitt fyrr á þessu ári.
Ár bloggsins
Talandi um að gera eitthvað í fyrsta skipti og fullyrða svo um ágæti þess: Ég fullyrti í janúar síðastliðnum að 2024 yrði ár bloggsins. Það var mitt fyrsta blogg. Ég stóð þó við það og er ekki frá því að ég hafi haft svolítið rétt fyrir mér. Ég bloggaði tuttugu sinnum, (tuttugu og einu sinni með þessu bloggi) og hafði gaman af. Ég er ekki frá því að 2024 hafi í raun verið ár bloggsins. Kannski ekki eins ýkt og ég vonaði, að long read og bloggpælingar tækju við af instagram, en ég byrjaði að fylgja þónokkrum íslenskum bloggurum sem ég hafði mjög gaman af að lesa. Ég elska að lesa lókal blogg. Bara, ég veit ekki, mér finnst það gefa mér inngang inn í það sem er að gerast á Íslandi. Það þarf ekki einu sinni að vera groundbreaking, bara íslenskar pælingar. Alveg eins og mér finnst Iceguys ekkert vera gæðasjónvarp en það sem sú sería gerir fáránlega vel er að vera alveg helíslensk, Karl Ágúst Úlfsson glæpaforingi? Örn Árnason að vitna í kardimommubæinn, dýrin í hálsaskógi og afa. Heimilstónar og Sigga Beinteins sem eineltisseggir (María Ólafs sem grínið er iconic). Þetta er snilld og gengur engan veginn upp nokkursstaðar annarsstaðar. Þættirnir eru einkabrandarar heillar þjóðar, sem er vel af sér vikið.
Þá hef ég líka fundið nokkur erlend blogg sem eru að kryfja international og net-menningu, sem ég hef mjög gaman af að lesa og get hiklaust mælt með.
Bloggið mitt náði einhverskonar hámarki í apríl þar sem ég obsessaði og gaf út svakalegt long read og rannsókn um víkinga sem vakna, inspírerað af seríu í lestinni, sem reynir að komast til botns í afturhvarfs til íhaldssemi í hinu mikla „væbshifti“ dagsins í dag.
Annað sem áhugavert er að skoða í uppgjöri ársins á blogginu er að ég bloggaði bara á meðan ég bjó í Finnlandi. Það er áberandi gat yfir sumarið sem ég var á Íslandi og svo eftir að ég kom heim í september, þá hefur bloggið safnað ryki í lyklaborðaskúffunni. Ég reyndi að setja fingurinn á það við komuna til Turku í ágúst, og pældi í tilfinningunni sem felst í því að vera á Íslandi og ég kallaði Yfirþyrmingu í borg óttans í blogginu trad wife í turku, sem eftir á að hyggja hefði átt að heita Bad bitch í Reykjavík, Trad wife í Turku. Pælingin var að það er svo mikið félagslegt álag í Reykjavík að tími til annars vinnst ekki.
Hvað mun 2025 bera í skauti sér? Í stuttu máli þá held ég að samfélagsmiðlaflóttinn haldi hægt áfram. Og bloggið er hluti af því, en ekki stór. Haldið þið að samfélagsmiðlar verði ennþá dæmi 2040? Eða verður instagram og tiktok þá eins og myspace er í dag. Orð sem triggerar nostalgíu og innsýn inn í samfélag sem er horfið? Eða verðum við enn kvíðnari og skautaðri enn í dag? Who knows?
Áramótaheit
Þá kemur að áramótaheiti mínu. Pælingin mín er að ég ætla að vera konsistent á þessu ári sem gengur brátt í garð. Semsagt. Ég varð fyrir miklum áhrifum af einum af mínum eftirlætisklifrurum, Dave McLeod, sem talar um að consistency is the most important element in training eða eitthvað álíka. Pælingin hans er að beisikkli sé mikilvægast, og jafnframt erfiðast, að vera samkvæmur sjálfum sér og halda stefnu. Hann jafnframt talar um að njóta þess að vera á svæði þar sem maður er að skora á sjálfan sig, og er að klúðra. Að embrace the failure. Sem er konsept sem er náttúrlega hugsað fyrir klifur, að vera að klifra eitthvað sem maður getur ekki klifrað, en ég vil yfirfæra yfir í mína list. Pæling sem ég hef lengi haft er einmitt að mig langar að æfa mig meira í því sem ég vil vera góður í. Að markmiðið sé ekki að gera eitthvað gott heldur að vera að uppgötva hluti sem maður vissi ekki áður, að uppgötva hæfileika sína, en ekki sína þá. Ég varð fyrir miklum áhrifum af því að lesa bókina hans, og ég er ekki alveg búinn að kjarna þessa hugsun, en ég finn mikið öryggi í því og mér finnst ég geta sleppt egóinu. Ég er ekki að stefna á að skapa listaverk sem eru góð, heldur er ég að reyna að komast lengra en áður með mínum listaverkum. Eða eitthvað álíka.
Þetta var stórt ár í leikhúsinu fyrir mig þegar mitt debut sem leikskáld fór á fjalirnar í Borgarleikhúsinu, Sýslumaður Dauðans. Það var virkilega gaman að finna fyrir áhorfendum tengja við verkið, og heyra snöktið sem færðist yfir salinn í seinni hlutanum, og ég átti mörg innileg og falleg spjöll við áhorfendur sem verkið hafði áhrif á. En nú er hætt að sýna það og ég finn að það er frelsandi, nú þarf að kanna hvað kemur næst. Það er staðurinn til að vera á.
Áramótaheitið mitt er að finna hvar ég get orðið betri, æfa mig í því og sýna auðmýkt.
Og fara meira á djammið.
Hvaða blogg er þetta? Er þetta stream of consciousness? Er þetta einhverskonar yfirferð yfir árið? Hvernig skal enda þetta? Kannski bara á þessu: Takk fyrir að lesa. Mér finnst gott að blogga, mér finnst gott að skrifa eitthvað sem ég veit að einhver mun lesa, en á sama tíma er engin pressa. Ég veit nefnilega hver ástæðan fyrir því að ég skrifaði miklu meira í Finnlandi en á Íslandi. Ástæðan er að það að skrifa er félagsleg gjörð. Í Finnlandi var félagslífið af skornum skammti og það að skrifa var kærkomin félagsleg gjörð, einhverskonar leið til að vera ekki einn.
Þannig að takk fyrir að lesa og ég hlakka til að lesa ykkar blogg, því ég elska íslensk blogg.
All the love. It was nice to catch your thoughts – albeit with the twists of translation errors. Google still got me quite far.
Now that I'm thinking about this, I think I'll make 2025 a year of the blog for me. Thanks for the inspiration.