Ég byrjaði að lesa Ulysses þegar ég lenti í Finnlandi. Ulysses er eina bókin sem ég hef nokkurn tímann svarið þess eið að ætla aldrei að lesa. Mér fannst þessi bók fráleit, stream of consciousness eftir einhvern höfund í tæpar 900 blaðsíður. Eitthvað sem átti að vera bókmenntaafrek 20. aldarinnar. Mikilvægasta bók módernismans eða eitthvað. Stream of consciousness, hundruðir blaðsíða. Hvílíkir stælar. Hvílíkt menntasnobb. Þetta ætlaði ég aldrei að glugga í. Þessu hef ég tönnlast á. Ulysses, þá bók les ég aldrei.
En svo vantaði mig bók að lesa og ég hafði ekkert í handraðanum, og þá laumupúkaðist þessi hugmynd upp að mér. Ætti maður kannski að éta hatt sinn og kafa ofan í Joyce? Ég er líka búinn að vera að háma í mig hlaðvarp sem ég get ekki mælt nægsamlega með, The blindboy podcast, sem er búið til af írskum listamanni með óþrjótandi áhuga á umheiminum, ómþýða rödd og undursamlegan írskan hreim. Hann minnist af og til á Joyce og þá man ég eftir heiti mínu, Ulysses mun ég aldrei lesa.
Þannig ég fletti upp bókinni í Kindle-búðinni. Hvað er hún eiginlega löng? Hvað kostar hún mikið? Svarið er að hún kostaði 60 sent. SEXTÍU SENT. Það er gjöf en ekki gjald. Það sakar ekki að hlaða henni niður. Hvenær hefði maður tíma til þess að lesa bók um ekkert í tæpar 900 blaðsíður ef ekki þegar maður hefur ekkert að gera í erlendu landi með engan augljósan félagsskap og blundandi barn í vagni?
Þannig ég hóf lesturinn og ég get sagt ykkur það að ég er kominn tæpar 200 blaðsíður inn og ég hef í raun ekki hugmynd um hvað er í gangi.
Það eru persónur í þessari bók og núna eru þær að borða hádegismat. Ég er ekki alveg viss um hver er hvað, en ég hef tilfinningu fyrir Leonard Bloom og Stefáni Dedalusi, þeir voru í jarðarför fyrir hádegi. Meira veit ég eiginlega ekki. En mér leiðist ekki. Hvað á það að þýða? Hef ég enga standarda? Enga tilfinningu fyrir sögu?
Ég horfi út um skítugan gluggann. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom hingað í maí síðastliðnum var að þvo grútskítuga gluggana. Nú ber hálf dauð kóríanderplanta við hálfskítugt glerið. Það eru framkvæmdirnar fyrir utan. Þeir byrjuðu að grafa upp götuna í maí. Nú er fátt eftir nema það að malbika. Þriggja mánaða stúss. Stór gul Liebherr grafa stendur ógnandi fyrir utan gluggann. Fimar vélar. Sá hana pikka upp lítið, hvað heitir þetta eiginlega? Ökubeinir. Þetta gula og rauða endurskinsdótarí sem segir hvoru megin bílar eiga að keyra. Skilrúm? Nei varla það er skrifstofudæmi. Þetta eru götuskilti. Ég held að þeir klári þetta í þessari viku, en það hélt ég líka í síðustu viku. Þeir geta ekki klárað endann á götunni því þeir fundu einhverjar fornminjar. Voru bara að grafa sinn skurð, og ætluðu að klára þetta í sumar en svo birtast einhverjar fornminjar og út er kallaður flokkur af fornleifafræðingum.
Enginn þeirra er með hatt eins og indiana Jones. Allir eru í endurskinsfatnaði og það er eins og allir séu starfsnemar. Tuttugu manns, ungt fólk, allir með litla sópa og kústa og skóflur að moka upp moldinni og reyna að skýra og átta sig á einhverju sem virðist hafa verið gata fyrir hvað, hundruðum ára? Ég veit ekki. Ég er enginn fornleifafræðingur. Ég gæti aldrei verið fornleifafræðingur. Ég hef svo lítið gaman af svona nákvæmnisstússi. Þegar ég var barn vildi ég leika mér með stóru trékubbana, hafði enga þolinmæði fyrir lego. Að velja liti? Enga þolinmæði. Legoturnarnir mínir voru háir, ljótir og marglitir. Ég hafði ekki þolinmæðina í það. Get ekki prjónað, get ekki föndrað. Get skrifað af einhverjum ástæðum. Ef eitthvað er föndur þá eru það bækur. Svaka mikið verið að nostra við einhvern texta, svaka þolinmæði. Svaka leiðinlegt, oft. Áin er búin að vera brún síðan í maí og mér dettur í hug að hún sé bara brún allt árið. Aura - heitir áin á finnsku. Ég velti fyrir mér hvort að það sé tenging við íslenska orðið aur. Aurug á. Ég þarf að fá mér hádegismat allavega einu sinni á dag en er alltaf uppiskroppa með hugmyndir. Skelli mér kannski í S-market. Það er gæðabúð í kjallara sem ég tek Eyju með mér í burðarbelti. Þar er hægt að fá tilbúinn mat. En mér líður líka eins og ég ætti að versla við einhverja lókal staði. Finna mér svona, minn stað hér í Turku. Súpermarkaður getur aldrei orðið minn staður nema það sé einhver hornbúð. Um leið og búð verður ákveðið stór þá getur maður ekki slegið tilfinningalegu eignarhaldi á hana. Pétursbúð var mín búð þegar ég bjó á Vesturgötunni. Nú er Joe búin að kaupa þessa sömu íbúð og er að gera hana upp á TikTok. Það fyrsta sem Joe gerði var að grunna blátt vaskaborðið hvítt. Mér líst ekkert á það. Hef engan áhuga á að sjá Joe taka burt það sem mér finnst gott í þessari íbúð. Gott og blessað að gera hana upp. Það var ein af ástæðunum fyrir því að við Hallveig fluttum, það þurfti að fara að gera upp eldhúsið, en ekki vera að mála bláa vaskaborðið hvítt. Þessi miðjarðarhafsblái litur er eitt það besta við íbúðina. Það og glugginn við hjónarúmið sem vísar beint út að tré. Það er tré beint fyrir utan gluggann. Stór og gildur trjástofn. Bjútiful. Ég var þarna nú bara í eitt/tvö ár þannig ég hef nú ekkert eignarhald á neinu þarna. En ekki vera að gera eitthvað sem ég myndi ekki vilja gera, það er bara það sem ég bið um. Fullkomlega ómöguleg bón. Ég þarf að pissa. Búinn að drekka tvo kaffibolla. Er að gæla við að fá mér þriðja. Það eru helvítis læti í uppþvottavélinni. Dóttir mín sefur með snuðið ofan á andlitinu. Hún pælir ekkert í þessu snuði. Maður þarf oft að rífa það undan hálsinum. Fyrir henni er snuðið kannski hluti af henni. Öfug við prinsessuna á bauninni. Prinsessan á snuðinu. Kippir sér ekki upp við það. Ég get ekki sofið með sandkorn í rúminu. Kemur sandur inn með barnavagninum og maður ber hann upp í rúm með berum tánum. Festist undir fætinum, tekur það upp í rúmið. Við vorum ekki með teygjulak fyrsta mánuðinn í þessari íbúð en erum komin með teygjulak og mér líður eins og fullorðnum einstaklingi. Fullorðnir einstaklingar nota teygjulök sem passa rúminu. Það erum við. Hvert fer tíminn? Það er ekkert sem ég kvíði jafn mikið fyrir og tíminn. Að hann líður. Og svo líður hann og er bara búinn einhverntímann. Stór verkefni ættu aldrei að enda. Mér leið þannig þegar ég fór í háskóla. Þessi þrjú ár munu aldrei enda. Mér leið þannig með leikritið mitt sem verður frumsýnt í næsta mánuði, mér líður eins og það verði aldrei frumsýnt. Ég kláraði að skrifa það fyrir rúmu ári. Svona mestanpart. Ég er með mikilmennskubrjálæði, ég held að það verði sérlega gott. Það þarf að kippa mér niður á jörðina. Slá mig utanundir. Þetta er bara eitt dót. Eitt dótarí. Ég er þakklátur fyrir laufin á trjánum. Grænn skrúður, græn hátíð fyrir utan gluggann. Ég er háður símanum mínum. Dóttir mín fer að vakna. Þarf að sinna henni bráðum. Ætti kannski að pósta. Ég sór þess eið að ég myndi aldrei lesa Ulysses en svo er ég byrjaður að lesa hana. Svona breytist maður, svona líður tíminn. Svona étur eitthvað ofan í sig aftur og aftur. Eða kannski ekki maður, ekki almennt. Svona er ég alltaf að fara gegn sjálfum mér. Ég.
"Núið er svo snúið því það er aldrei búið" sagði Nonni Ragnars. Las hann líka Ulysses? Hef sjálf aldrei nennt því (hef reynt)- hljómar svolítið eins og jazz með enga skýra laglínu eða fókus - bara flæði. Ég hef óþol fyrir þannig texta og mússík, sem er skrítið því að liggja á árbakka og fljóta inn í niðinn finnst mér dásamlegt. Á kannski eftir að þroskast - sem er að reyndar verða svolítið seint :)